Dnrdraumur - RAFHJLAFER 8. - 16. sept. 2017
DONA DES 17   DÓNÁRDRAUMUR - RAFHJÓLAFERÐ
9 dagar / 8 nætur
Lágmarks fjöldi 10 manns, hámark 15
Fararstjóri Brandur Jón Guðjónsson

LÉTT RAFHJÓLAFERÐ UM FALLEGT LANDSLAG OG ÞÆGILEGA STÍGA

 

Ein fjölfarnasta og vinsælasta hjólreiðaleið Evrópu liggur meðfram Dóná, frá Passau í Þýskalandi austur til Vínarborgar í Austurríki. Þessar vinsældir eru engin tilviljun, leiðin er samtals u.þ.b. 360 km og fylgir þessu mikla fljóti um bugður og beygjur þar sem ýmist er flatlendi með þorpum og bæjum allt í kring eða þröngir dalir þar sem gamla kastala bera við himin á skógi vöxnum hæðum og ásum ofan árinnar.  

Landslagið er fjölbreytt og fallegt og ýmist er hjólað sunnan eða norðan megin árinnar. Skipastigar og vatnsaflsstöðvar eru á nokkrum stöðum í ánni og þar er farið yfir hana eða á brúm eða með litlum þjónustu bátum.

Vænta má hitastigs frá 20 – 30°C og á góðum degi jafnvel uppfyrir það J

Skip og bátar af ýmsum stærðum og gerðum sigla um fljótið og á frjósömu landinu meðfram ánni er rekinn blómlegur landbúnaður.

Byggð hefur verið á þessu svæði í árþúsundir og í ferðinni verður stiklað á stóru um ýmis tímabil í sögu þess.

Hjólaleiðin er nánast alveg flöt eða örlítið niður á við og dagleiðirnar eru u.þ.b. 50 – 70 km.  

Gist er á þægilegum 3*** hótelum og gistihúsum nema í Linz, Vínarborg og Salzburg þar sem gist verður á 4**** hótelum. Farangur (ein taska á mann) er fluttur með bíl á milli gististaða.

Að hjólaferðinni lokinni verður farið í uþb. 3 klst. skoðunarferð um Vínarborg til þess að sjá ýmsa merka staði og byggingar í miðborginni.

RAFHJÓLIN gera allar dagleiðir mun léttari og þetta er því ferð sem hentar nánast öllum sem á annað borð geta hjólað. Þó ber að hafa í huga að hjólað er sex daga í röð þannig að þátttakendur þurfa að vera vanir að sitja hjól í nokkra klukkutíma á dag.  Lágmarks fjöldi er 10 manns / hámark 15 manns

 

Ferðaáætlun:

Dagur 1 – föstudagur, 8. september

Munchen - Passau

Flogið með Icelandair kl. 07:20 til Munchen, áætluð lending þar kl. 13:05 og við tekur rútu- og lestarferð til Passau, sem tilheyrir Bæjaralandi í Þýskalandi, rétt við Austurrísku landamærin.

Dagar 2 til 7 – laugardagur, 9. til fimmtudags, 14. september

Passau  – Vínarborg

Byrjað er á að skoða miðbæinn í Passau, borg hinna þriggja fljóta, en síðan hefst hin eiginlega hjólaferð um hádegið.

Næstu daga verður farið um fjölbreytt og fallegt landslagið meðfram Dóná þar sem ótalmargt smærra og stærra vekur athygli, um grösugar sveitir og glitrandi torg og fylgst með mannlífi, dýralífi og fuglum himinsins eða hverju því öðru sem fyrir augu ber. Um Schlögen (þar sem áin tekur 180° beygju), Linz (ein af menningarborgum Evrópu 2009), Wachau dalinn (á heimsminjaskrá UNESCO) o.fl. o.fl.

- Upptalning segir ekki nema hálfa sögu, því að nú sem ætíð er sjón sögu ríkari!

Dagleiðirnar eru 50 – 70 km og farið frekar rólega um til að upplifa það sem fyrir augu ber og dagurinn nýttur í að njóta frekar en þjóta!

Seinnipart dags þann 14. verður komið inn á hótel í Vín.

(Dagur 2 - Passau til Schlögen / dagur 3 - Schlögen til Linz / dagur 4 - Linz til Grein / dagur 5 - Grein til Melk / dagur 6 - Melk til Traismauer / dagur 7 - Traismauer til Vínar)

Dagur 8 – föstudagur, 15. september

Vínarborg að morgni / Salzburg síðdegis

Þennan dag verður byrjað á að fara í skoðunarferð til að sjá nokkur af helstu kennileitum Vínarborgar áður en farið verður um hádegið af stað með lest til Salzburgar þar sem að dvalið verður síðustu nóttina.

Dagur 9 – laugardagur, 16. september

Heim á leið...

Eftir morgunmatinn verður farið yfir til Munchen og beint út á flugvöllinn, flugið heim er kl. 14:05 

 

Þjónusta & verð

 

Innifalið í verði ferðar:

Flug og flugvallaskattar

08.09.2017: Flug FI 532  Keflavík - Munchen,

brottför 07:20 lending 13:05

16.09.2017: Flug FI 533  Munchen – Keflavík,

brottför 14:05 lending 16:00

Vinsaml. athugið að flugtímar geta breyst.

Gisting

Gist á góðum 3 og 4 stjörnu gistihúsum og hótelum.

Matur

Morgunmatur:

Innifalinn alla dagana nema einn (9.- 16. sept.)

Kvöldverður:

Innifalinn 6 fyrstu dagana (ekki í Vín og Salzburg).

Flutningur o.fl.

Allur akstur og siglingar sem þarf til að fylla inn í áætlun reiðhjólaferðar. Farangur fluttur á milli hótela á hjólaleiðinni (trúss, hámark 1 taska á mann). Rútur og lestar til og frá flugvelli

Annað

Skoðunarferð uþb 3 klst. með rútu og innlendum leiðsögumanni um helstu staði Vínarborgar

Rafhjól

Allir þátttakendur verða á rafhjólum í þessari ferð og þeim fylgja ein taska á bögglaberann og önnur á stýrið

Fararstjórn

Brandur Jón Guðjónsson (fundur með fararstjóra fyrir ferðina) 

Ekki innifalið:

Aukaferðir yfir Dóná (valkvætt), drykkir með kvöldmat, hádegishressing, kvöldverðir í Vín og Munchen, aðgangseyrir á söfn o.þ.h. og annað sem ekki er talið upp í „innifalið”

Verð:

Verð á mann í tveggja manna herbergi

299.900,- staðgreitt

Verð á mann í eins manns herbergi

329.900,- staðgreitt

Greiðslur og gjalddagar:

Staðfestingargjald:

Staðfestingargjald ISK 75.000 þarf að greiða innan 7 daga frá pöntun. Athugið að staðfestingargjald fæst ekki endurgreitt ef til afbókunar af hálfu viðskiptavinar kemur

Lokagreiðsla:

Til að staðgreiðsluverð gildi þarf að greiða ferð að fullu í síðasta lagi 8 vikum fyrir brottför, annars hækkar verð um 5%

Ábendingar:

Ferðaskrifstofan Íslandsvinir og fararstjórar hennar áskilja sér allan rétt til að breyta áætlunum ferða ef veður, umferð og/eða ástand vega, eða aðrar ófyrirsjáanlegar aðstæður gefa tilefni til.

 

Forfallatrygging er ekki í boði í sérferðum ferðaskrifstofunnar. Í mörgum tilfellum er forfallatrygging innifalin í skilmálum greiðslukorta og/eða heimilis- og fjölskyldutrygginga fólks og er viðskiptavinum bent á að hafa samband við banka sinn eða tryggingarfélag til að kanna stöðu mála. Verð ferðar er háð almennum gengisbreytingum, en breytist ekki eftir að hún er að fullu greidd.

 

Ferðaskrifstofan Íslandsvinir er aðili að SAF (Samtök ferðaþjónustunnar, sjá www.saf.is) og því gilda almennir skilmálar samtakanna um allar ferðir ferðaskrifstofunnar, auk þess sem viðkomandi flugfélag getur verið með sína skilmála til viðbótar.

         

 

Frekari upplýsingar fást hjá starfsfólki Íslandsvina í síma 510 9500 eða sendið fyrirspurn á info@islandsvinir.is

 

Farþegar í ferðum Íslandsvina fá sérkjör í verslunum  Fjallakofans  í Hafnarfirði og Reykjavík, en Fjallakofinn selur útivistarvörur í háum gæðaflokki, m.a. hjólafatnað frá Löffler, kjörinn fyrir ferð sem þessa.  

| More